Fara á efnissvæði

Verkefni

Reyklaust tóbak

Reyklaust tóbak

UMFÍ, Fræðsla og forvarnir (FRÆ) og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hlutu vorið 2022 styrk frá Lýðheilsusjóði til þess að taka höndum saman og vinna að forvarnarverkefni gegn reyklausu tóbaki. Öll þessi félög hafa áratuga reynslu af fræðslu- og forvarnarstarfi.

Notkun rafsígaretta hefur minnkað mikið eftir að lög um þær tóku gildi en á móti hefur notkun á nikótínpúðum aukist gríðarlega. Samstarfsaðilar lögðu upp með samstillt átak og breiða nálgun. Þeir vilja vinna að því að koma böndum á þennan vágest sem reyklaust tóbak er, sérstaklega meðal ungs fólks og tryggja þann góða árangur sem hefur náðst í tóbaksvörnum.

Í október 2022 fór fram málþing undir yfirskriftinni Nikótín og heilsa. Á málþinginu var fjallað um nikótín og áhrif þess á heilsu ungmenna, mikilvægi lýðheilsuaðgerða, áhrif nikótínpúða á munnhol, nikótínfíkn og meðferð og hvort nikótín væri lyf eða neysluvara. Einnig var rætt um nikótín notkun íslenskra ungmenna, viðhorf almennings til nikótínvara, nýju nikótínlögin og fræðslu í skólum um notkun tóbaks og nikótínvara. Bæði heilbrigðisráðherra og landlæknir ávörpuðu þingið. Þinginu var streymt og tekið upp.

Upplýsingar og upptökur frá málþinginu

  • Á málþinginu voru flutt þrjú ávörp.

    Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ

    Hlekkur á ávarp: https://vimeo.com/manage/videos/790811758



    Alma Möller landlæknir. 

    Hlekkur á ávarp: https://vimeo.com/manage/videos/835385428



    Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

    Hlekkur á ávarp: https://vimeo.com/manage/videos/790824702

  • Lára Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum

    Hér bendir Lára á að þrátt fyrir mikið magn upplýsinga um skaðsemi tóbaks, sé enn afar lítið um rannsóknir á nikótínpúðum. Varan sé þó auglýst hættulítil, sem eigi ekki við rök að styðjast heldur valdi púðarnir ýmsum aukaverkunum og trufli t.d. taugaþroska framheila ungmenna. Nikótín gefi neytandanum vellíðan í upphafi en hætti fljótt að hafa jákvæð áhrif. Þvert á móti auki efnið líkur á vanlíðan, hafi neikvæð áhrif á mikilvægustu svefnstigin, og dragi úr getu til lærdóms og einbeitingar. Lára telur mikla þörf á auknum rannsóknum því neysla ungmenna sé að aukast, en litlar sem engar reglugerðir séu í kringum nikótínpúðana. Í þeim sé margfalt meira nikótín en í tóbaki en því meira magn, því meiri hætta sé á að ánetjast efninu. Nikótín sé nær alltaf fyrsta fíkniefni þeirra sem leiðast yfir í önnur efni og notkunin byrji oftast á barnsaldri. Lára veltir fyrir sér hvort of mikið umburðarlyndi ríki í samfélaginu fyrir nikótínneyslu ungmenna sem ekki hafi dómgreind og þroska til að skilja áhættuna.

    Hlekkur á fyrirlestur:

     
    https://vimeo.com/manage/videos/790817062

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni: 

    • Nikótínpúðar hafa enn lítið verið rannsakaðir en ýmislegt er þó vitað um skaðsemi nikótíns, hvað af því er nefnt í þessum fyrirlestri? Af hverju og á hvaða hátt er varasamara fyrir ungmenni að nota nikótín en eldra fólk? Og af hverju ætli nikótínneysla ungmenna sé þá að aukast?
    • Hvaða ályktanir má draga af því að framleiðendur tóbaks (sem enn drepur yfir 8 milljónir manns árlega) framleiði líka nikótínpúða (og rafrettur), og markaðssetji efnið gjarnan sérstaklega fyrir unglinga?

     

  • Stefán Pálmason, tannlæknir og sérfræðingur í lyflækningum munnhols

    Stefán talar hér um áhrif tóbaks og nikótíns á munnholið. Til séu nokkrar ólíkar tegundir munntóbaks og mikill munur á magni krabbameinsvaldandi efna í þeim. Nikótínpúðar séu nýjasta varan og langtímaáhrif þeirra ekki enn þekkt. Hætta á krabbameini í munnholi af völdum þeirra virðist vera lítil ef einhver, en þó liggi vafi á þessu þar sem púðarnir séu enn að mestu órannsakaðir. Ljóst sé þó að mikil kemísk erting sé af púðunum og þeir geti valdið ýmiskonar vandamálum í munnholi; s.s. hörfun á tannholdi, lit á tönnum, útbungunum á beini, bandvefsaukningu og sárum sem hverfa ekki þótt tóbaks- eða nikótínneyslu sé hætt.  

    Hlekkur á fyrirlestur: 


    https://vimeo.com/manage/videos/790822958

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni: 

    • Er hættan á krabbameini það eina sem ætti að fæla fólk frá notkun nikótínpúða? Hvað með vandamálin og útlitseinkennin sem Stefán telur upp?

     

  • Sylvía Runólfsdóttir, læknir á sjúkrahúsinu Vogi

    Hér ræðir Sylvía meðferð við nikótínfíkn og hvernig gagnlegt sé að styðja unga neytendur í því að hætta notkun. Nikótín sé afar ávanabindandi, fráhvarfseinkenni komi strax fram og löngunin vari lengi. Því sé erfitt að hætta en með stuðningi og réttum verkfærum sé það vissulega hægt, fræðsla og aðstoð annarra skipti hér höfuðmáli. Hjálpa þurfi ungu fólki að skilja ágóðann af því að hætta nikótínnotkun; sem er t.d. betri heilsa, peningasparnaður, tímasparnaður og frelsi frá fíkn og fráhvörfum. Áhugavekjandi samtal og góð samvinna með hinum unga neytanda sé árangursrík aðferð; með áherslu á sjálfstæði hans, frelsi og ábyrgð á eigin lífi. Slíka tækni þjálfist allt starfsfólk SÁÁ í, en kennarar og öll sem starfa með ungu fólki gætu einnig nýtt sér.

    Hlekkur á myndband:


    https://vimeo.com/manage/videos/790823618

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni: 

    • Góður stuðningur annarra er ein besta leiðin til að hætta fíknihegðun. Gæti skólakerfið aðstoðað nemendur á þennan hátt? Hvernig þá helst?
    • „Jákvæð“ áhrif af notkun nikótíns finnast aðeins rétt í byrjun, notkunin eftir það er aðeins til að stoppa af fráhvarfseinkennin. Er þess virði að byrja? Hvernig væri hægt að gleðja líkamann öðruvísi en að gera hann háðan eitruðu efni?
  • Viðar Guðjohnsen, eftirlitsmaður hjá markaðseftirlitsdeild lyfjastofnunar

    Viðar ræðir hér flokkun á nikótínvörum og segir þær lengi hafa ýmist verið flokkaðar sem tóbaksvara eða lyf (í meðferð við tóbaksfíkn), og þannig fallið undir sitthvort lagasviðið. Í dag sé eitt hlutverka Lyfjastofnunar að meta „vafavörur“ sem ekki séu framleiddar sem lyf en kunni þó að falla undir gildissvið lyfjalaga, dæmi um þetta séu t.d. nikótín, vítamín og steinefni. Viðar segir nikótín mikið eitrað efni, mjög ávanabindandi og hafi ýmis skaðleg áhrif (og sé vissulega unnið úr tóbaksplöntunni) en tóbakslausar nikótínvörur séu þó ekki flokkaðar sem tóbak. Né sem lyf enda sjaldnast notaðar til að sigrast á tóbaksfíkn. Nýliðun á notkun nikótínvara sé ekki hjá reykingarfólki heldur ungmennum sem aldrei hafi reykt, og neysla ungs fólks (sérstaklega stelpna) sé að aukast. Þessi vandi við flokkun vörunnar þýði að framleiðslan sæti að jafnaði ekki vottun opinberra aðila og engir heilbrigðisstarfsmenn komi að þróuninni, púðarnir séu því lítið rannsakaðir og geti innihaldið hættulega mikinn styrk nikótíns.

    Hlekkur á fyrirlestur:


    https://vimeo.com/manage/videos/790824099

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni:
    Við vitum enn þá mjög lítið um langtímaáhrif nikótínpúða en vitum þó að efnið er mikið eitrað. Er þess virði að vera tilraunadýr og vona það besta?

    • Af hverju ætli tóbakslausar nikótínvörur hafi farið í framleiðslu einmitt þegar samfélagið veit mikið um skaðsemi tóbaks og reykingar á miklu undanhaldi?
  • Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu- og forvarna

    Árni kynnir langa og farsæla sögu tóbaksvarna á Íslandi. Á 8. áratug síðustu aldar hafi almennt orðið viðurkennt að tóbaksneysla hefði ýmis neikvæð áhrif á heilsuna, og þá kviknað þjóðarátak um að reykingum skyldi útrýmt. Við hafi tekið lagasetningar varðandi framboð og sölu, og öflug fræðsla til umhverfis ungmenna. Þetta einbeitta átak hafi skilað sér í því að tóbaksneysla 12-16 ára ungmenna hríðféll, sem og reykingar fullorðinna. Árni segir samfélagið nú standa fyrir endurteknu efni og spyr hvort við þurfum ekki að vera áfram á tánum, með lýðheilsu og þjóðarheill að leiðarljósi. Það sé skýr vilji þjóðarinnar þar sem árlegar Gallup-kannanir sýni afgerandi stuðning við rafrettubann á veitinga- og skemmtistöðum, og því að kaup á nikótínpúðum verði háð sömu skilyrðum og kaup á öðrum nikótínvörur. Einnig telji meirihluti Íslendinga að notkun á rafrettum og nikótínpúðum sé svipað skaðleg og tóbaksreykingar. 

    Hlekkur á fyrirlestur:
    https://vimeo.com/manage/videos/790815194

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni: 

    • Eitt sinn mátti reykja sígarettur í flugvélum, á spítölum og í skólum. Við vissum ekkert um skaðsemi tóbaks fyrr en fjöldi rannsókna (og dauðsfalla) staðfesti áhættuna. Framleiðsla nikótínvara, markaðssetning og notkun fylgir sömu lögmálum og þegar sígarettur komu fyrst á markað. Er líklegt eða ólíklegt að nikótínpúðar fylgi sama mynstri og tóbak, og verði á endanum bannaðir og lítið notaðir? 
    • Af hverju ætli yngra fólk sé jákvæðara í garð nikótínvara en eldra fólk (samkvæmt Gallup könnunum)? Ætli það sé rétt metið hjá Árna að elda fólkið muni hvað var vont að vera háð skaðlegu efni og erfitt að hætta að reykja, og vilji forða ungmennum í dag frá slíkri reynslu?
  • Kristín Ninja Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá Heilbrigðiseftirlitinu

    Kristín fer hér yfir nýsamþykkt lög um nikótínvörur en fram að júní 2022 giltu engar reglur um slíkar vörur. Í ljósi útbreiðslu og eðli nikótínpúða hafi lagasetning þó fljótt orðið aðkallandi. Skoðað hafi verið að fella púðana undir lög um t.d. tóbak, lyf, matvæli eða rafrettur, en engin gildandi löggjöf hafi þótt eiga við, svo inn í landið hafi streymt ávanabindandi söluvara án eftirlits og reglugerðar um t.d. markaðssetningu, innihaldsefni eða aldurstakmörk. Brún þörf hafi því verið á nýrri lagasetningu en ennþá sé ekki í gildi samræmd evrópsk löggjöf um nikótínpúða. Kristín segir löggjöf annarra landa ólíka; misjafnt sé hvernig púðarnir séu flokkaðir og hversu langt gengið í lögum. Í íslenska frumvarpinu sé áhersla lögð á fælingarmátt og varnaðaráhrif, eftirlit og viðurlög; með það að markmiði að draga úr notkun og koma í veg fyrir nýliðun meðal ungmenna. Kristín fer yfir helstu ákvæði nýju laganna, s.s. hvað varðar sölu og markaðssetningu, merkingar og hönnun á umbúðum, hámarks nikótínmagn og aukaleg innihaldsefni, aldurstakmörk og reglubundna fræðslu, og loks viðurlög við lagabrotum.

    Hlekkur á fyrirlestur:
    https://vimeo.com/manage/videos/790816476

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni: 

    • Ákveðinn hópur vill að sem minnsta hömlur séu á sölu og framleiðslu á nikótínpúðum, þar sem efnið sé skaðaminnkandi og hjálpi fólki að hætta tóbaksneyslu. Hvernig passar það við þá staðreynd að flestir notendur púðanna eru ungmenni sem aldrei hafa notað tóbak?
  • Andrea Ýr Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilsulausnum

    Andrea kynnir fyrirtæki sitt Heilsulausnir, sem sinni forvarnastarfi og fræðir ungmenni um allt land. Hún segir nikótínpúða afar venjuvædda af samfélaginu, umhverfi ungmenna og jafnvel fyrirmyndum þeirra. Aðgengi að púðunum sé galopið, hvort sem er í löglegri sölu eða á svörtum markaði. Andrea segir ungmennafræðslu Heilsulausna byggja á áhugahvetjandi samtalstækni og virkum umræðum. Hjúkrunarfræðingarnir leggi áherslu á sjálfsmyndina og leiðir til að byggja hana upp, því sterk sjálfsmynd sé besta forvörnin gegn allri áhættuhegðun. Þær kjósi uppbyggileg skilaboð og gagnlegar upplýsingar fram yfir boð og bönn - að tala við ungmennin frekar en yfir þeim, svo þau geti tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf. Þá skipti eftirfylgni ekki minna máli en sjálf fræðslustundin, svo Heilsulausnir bjóði einnig upp á foreldrafræðslu og efni fyrir skóla að nýta sér. Andrea segir ungmenni almennt vita lítið um nikótín, telji efnið skaðlítið og þekki ekki hversu ávanabindandi það er. Þau séu hins vegar flest meðvituð og andvíg reykingum, sem sýni hinn góða árangur í forvarnastarfi um tóbak. Fræðsla og umræða um nikótínvörur sé því rétta leiðin í dag.

    Hlekkur á fyrirlestur:

    https://vimeo.com/manage/videos/790813830

    Hugmyndir að umræðum og/eða verkefnum fyrir ungmenni: 

    • Af hverju ætli flestir unglingar viti hvað sígarettur eru skaðlegar en viti lítið um skaðsemi nikótínpúða? Myndi aukin fræðsla um nikótín minnka notkun ungmenna, líkt og tóbakfræðsla gerði fyrir áratugum síðan? 
    • Notaðir nikótínpúðar eru ofsalega hættulegir ungum börnum (og dýrum) en fólk spýtir þeim út úr sér hvar sem er. Hvernig tilfinning ætli sé að henda frá sér púða... sem lítið barn stingur svo upp í sig og verður lífshættulega veikt af nikótíneitrun?